Ég var að lesa góða lygasögu áðan, og vildi leyfa ykkur að njóta hennar með mér

STEFNUYFIRLÝSING VINSTRIHREYFINGARINNAR - GRÆNS FRAMBOÐS

"Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum almenningi til hagsbóta, hefja vernd náttúru og umhverfis til vegs á Íslandi og treysta byggð um allt land. Hreyfingin er samstarfsvettvangur og baráttutæki þeirra, sem vilja útrýma kynjamisrétti og tryggja jafnrétti, kvenfrelsi og aukinn jöfnuð í samfélaginu.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag grundvallað á virkri þátttöku almennings. Hreyfingin hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum. Vinstrihreyfingin­ – grænt framboð vill binda enda á hersetu í landinu og aðild að hernaðarbandalagi, en leggur áherslu á að eiga gott og friðsamlegt samstarf við allar þjóðir, vernda náttúru og umhverfi landsins og tryggja sjálfbæra þróun samfélagsins.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur sígildar áherslur vinstristefnunnar um jöfnuð og félagslegt réttlæti, róttæk umhverfisverndarsjónarmið og kröfur um sjálfbæra þróun eiga og verða að fara saman. Hvorugt fær staðist án hins þegar til framtíðar er litið. Lífskjör og velferð núlifandi kynslóða mega ekki byggja á því að náttúrugæðum sé spillt og gengið á rétt þeirra sem á eftir koma. Á sama hátt felst það í heilsteyptri umhverfisverndarstefnu að skammtímahagsmunir, neysluhyggja og gróðafíkn víki fyrir verndun umhverfis og varðveislu náttúrugæða. Verkefnið er að lyfta gildum raunverulegra lífsgæða, skapa samfélag réttlætis og jafnaðar í góðri sátt við lífríkið allt og móður jörð

Náttúra og umhverfi

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eiga að vera sameign landsmanna og þær á að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Atvinnuvegir og fyrirtæki þurfa að laga sig að kröfum um sjálfbæra þróun og vistvæn framleiðsluferli. Varðveita þarf hreinleika landsins í almannaþágu til frambúðar svo og til að treysta atvinnulíf og framleiðslu og sölu á hollum neysluvörum. Taka þarf upp græna þjóðhagsreikninga og meta verðmæti ósnortinnar náttúru. Skattkerfið á einnig að hvetja til umhverfisverndar.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð styður sjálfbæra orkustefnu og leggst gegn mengandi stóriðju og stórvirkjunum sem valda mikilli röskun á náttúru landsins. Við viljum vernda hálendi Íslands og stofna þar til stórra þjóðgarða og friðlanda. Við gerum kröfu um víðtækan almannarétt í sátt við landið og fólkið í dreifðum byggðum. Lífríki landsins, landslag og jarðmyndanir þarf að vernda með heildstæðri löggjöf og skipulagi. Við styðjum vistvænar fiskveiðar og vernd uppvaxtarsvæða nytjafiska.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á öfluga alþjóðlega samvinnu um umhverfismál og bindandi sáttmála svo að land okkar og jörðin öll verði góður bústaður til frambúðar. Vernd hafsins gegn mengun er úrslitaatriði fyrir Íslendinga. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill stuðla að sem bestri samvinnu við samtök áhugafólks um umhverfisvernd og virkja almenning til þátttöku í að byggja upp vistvænt, sjálfbært samfélag í þágu núlifandi og óborinna kynslóða.

Jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar

Vinstrihreyfingin - grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar og uppruna. Aðstaða allra landsmanna verður að vera sem jöfnust, óháð búsetu og félagslegri stöðu. Við gerum kröfu um fullt jafnrétti til náms og jafnan rétt allra til opinberrar þjónustu, upplýsinga um samfélagsleg málefni og til virks tjáningarfrelsis. Félagslegt húsnæðiskerfi er nauðsynlegur þáttur í því að tryggja velferð landsmanna. Skylt er að tryggja vaxandi hópi aldraðra mannsæmandi kjör og aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu. Gera verður átak til að stórbæta kjör og allar aðstæður öryrkja. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill auka þátttöku feðra í uppeldi barna sinna. Uppeldi og velferð barna er ábyrgð foreldra og virða þarf rétt barna til að njóta samvista við foreldra sína.

Stöðu landsbyggðarinnar verður að styrkja með róttækum kerfisbreytingum og valddreifingu til að treysta byggð. Afar brýnt er að bregðast við fólksflótta frá landsbyggðinni, fyrst af öllu með því að leiðrétta þá fjárhagslegu mismunun sem landsbyggðarfólk býr við í námskostnaði, húshitun og vöruverði. Fjölbreytt atvinnulíf og öflug menningarstarfsemi ásamt traustri samfélagsþjónustu og góðum skólum er undirstaða lífvænlegrar byggðar. Slíku verður ekki náð fram með einkavæðingu og einkarekstri í undirstöðuþáttum velferðarkerfisins, sem bitnar harðast á dreifðum byggðum. Skilgreina þarf hvaða undirstöðustofnanir samfélagsins eigi að lúta lýðræðislegum yfirráðum almannavaldsins.

Til þess að ná fram þessum markmiðum þarf að setja valdi fjármagns og markaðsafla skorður, tryggja réttláta tekjuskiptingu og lýðræðislega stjórnarhætti. Forgangsverkefni er að 40 stunda vinnuvika dugi til eðlilegrar framfærslu þannig að tryggja megi fulla atvinnu og rjúfa víta­hring lágra launa og vinnuþrældóms. Búa verður þannig um hnúta að allt verkafólk sem starfar á Íslandi njóti sömu kjara, hvaðan sem það kemur til að stunda hér vinnu sína.

Kvenfrelsi

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur að Ísland eigi að vera öflugur málsvari félagslegs réttlætis um allan heim. Hreyfingin vill samfélag þar sem bæði konur og karlar fá notið sín og hafnar því að fólki sé mismunað eftir kyni. Réttlátt samfélag er hagur allra - bæði kvenna og karla. Til þess að fullt formlegt og félagslegt réttlæti náist þurfa karlar að afsala sér forréttindum sem þeir hafa tekið í arf.

Kynjafræði eiga að vera sjálfsagður hluti af skólakerfinu. Forsenda kynjajafnréttis er að uppfræða komandi kynslóðir um ástandið í samfélaginu og hvetja ungt fólk til að lagfæra misréttið.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur mikilvægt að laun séu ákvörðuð með tilliti til þess sem leyst er af hendi en ekki því hvort karl eða kona vinnur verkið. Tryggja verður kynjunum jafna möguleika til framfærslu og viðurkenna að samfélagið fær ekki staðist án vinnuframlags kvenna. Öflugt velferðarkerfi er ein af lykilforsendum kvenfrelsis. í slíku velferðarkerfi er ekki gert ráð fyrir ólaunaðri umönnun kvenna heldur er vinnuframlag þeirra innan kerfisins metið til launa.

Líkaminn má aldrei verða söluvara. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill að kynferðislegt sjálfstæði kvenna verði viðurkennt og telur að konur eigi skýlausan rétt til að ráða yfir eigin líkama, þar með talið að taka ákvarðanir um barneignir.

Stjórnvöld eiga að vera skuldbundin til að tryggja konum og börnum öryggi gegn öllu ofbeldi og þeim ber jafnframt að tryggja að kynferðisofbeldi sé meðhöndlað sem lögbrot og karlar kallaðir til ábyrgðar. Kynferðisofbeldi birtist m.a. í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðislegri áreitni og líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og börnum inni á heimilum þeirra.

Konur eru fátækasti hluti íbúa jarðar og stríð bitnar ekki síst á þeim og börnum. Brýnt er að veita konum öryggi, sýna þeim samstöðu og taka tillit til kynferðis við alla þróunaraðstoð. Viðurkenna verður mikilvægi kvenna í framþróun þriðja heimsins.

Samfélag og atvinnulíf

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla samfélagsþjónustu og velferðarkerfi og tryggja að fjárhagsleg staða fólks skerði aldrei möguleika þess til að njóta opinberrar þjónustu og félagslegs öryggis. Meginstoðir velferðarkerfisins eiga að heyra beint undir ríki og sveitarfélög. Efla þarf umræðu um siðferðisleg gildi í stjórnmálum og opinberu lífi. Auðvelda þarf aðgang að upplýsingum en jafnframt tryggja persónuvernd sem aldrei má fórna á altari tækniþróunar og viðskipta.

Leggja verður allt kapp á að bæta aðstöðu fjölskyldunnar og auka möguleika fólks með ung börn til samveru. Þannig má treysta bönd fjölskyldunnar, vinna gegn upplausn heimila og sókn ungmenna í fíkniefni. Draga verður úr tekjutengingu og jaðaráhrifum í skattkerfinu og almannatryggingum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill styrkja stöðu launafólks til að beita samtakamætti sínu í þágu kjara- og réttindabaráttu og til að hafa meiri áhrif á þróun samfélagsins en það hefur nú.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og nýti umhverfisvæna tækni. Sérstaka áherslu ber að leggja á stuðning við fjölbreytta nýsköpun, vöxt og viðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Koma verður í veg fyrir óhóflega gróðasöfnun í skjóli einokunar eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja og skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf í fjölbreyttu og þróuðu atvinnulífi en varast ber að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti.

Sjálfstæð utanríkisstefna, félagsleg alþjóðahyggja

Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu. Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna aukinni vígvæðingu. Íslendingar eru best settir án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Brýnt er að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Beina verður aukinni athygli að umhverfisöryggi og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum.

Við viljum efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna og styrkja lýðræðislega starfshætti á vettvangi þeirra. Treysta ber stoðir þjóðaréttar í þágu friðar og mannréttinda og stuðla að aukinni þátttöku almennra félagasamtaka í stefnumörkun alþjóðamála. Íslensk stjórnvöld eiga að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um afvopnun og takmarkanir á vígbúnaði. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla þátttöku Íslands í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum eins og Noðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Ísland á að styðja eindregið markmið Sameinuðu þjóðanna og ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar með því að leggja sitt af mörkum til að útrýma fátækt og hungri, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun, mannréttindabrotum og hernaðarhyggju. Íslendingar eiga að stórauka framlög sín til þróunarstarfs og leggja fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla samstarf allra þjóða heims á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum skoðunum og menningu. Nauðsynlegt er að réttur allra jarðarbúa til að njóta góðs af framförum í heilbrigðisvísindum verði viðurkenndur og virtur.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill tefla félagslegri hnattvæðingu fram gegn hinni kapítalísku hnattvæðingu samtímans og vinna að friðsamlegri sambúð þjóða, fullum mannréttindum, kvenfrelsi, velferð og jöfnuði allra jarðarbúa. Koma verður með sérstakri skattlagningu eða alþjóðlegum reglum í veg fyrir spákaupmennsku með fjármagn heimshorna á milli. Við teljum að öll ríki heims eigi að hafa óskoraðan rétt og tækifæri til að nýta auðlindir sínar á skynsamlegan hátt í því augnamiði að byggja upp velferðasamfélög sem standast kröfur um sjálfbæra þróun. Til þess að svo megi verða þarf að leysa hinar fátækari þjóðir af skuldaklafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, og endurskoða starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá grunni. Leikreglum heimsviðskipta þarf að gerbreyta til að tryggja félagslegt jafnrétti og virðingu fyrir öllu umhverfi.

Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð lýsir stuðningi við hvers kyns friðsamlega baráttu fyrir félagslegu réttlæti án landamæra og jafnframt vilja sínum til að taka þátt í þeirri baráttu hérlendis sem erlendis"

 Hafið þið séð skemmtilegri lygasögu? 

Ég afritaði þessa skemmtisögu af vefsíðu Vinstri Grænna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha þetta er góð saga, bara ef hún væri nú SÖNN

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.7.2011 kl. 09:21

2 identicon

Greinin er góð en ef sagnfræðingar færu yfir þetta lið fyrir lið kæmust þeir að því asð Vinstri Grænir voru í dulargerfi Stalins og landið stefnir þráðbeint í örbirgð þar sem hagvöxtur mun ekki aukast.

Eðalgrímur er brattur í yfirlýsingum um að allt sé í goody undir hans stjórn en hvílík fyrra ég segi nú bara ekki meira.

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 15.7.2011 kl. 10:44

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

HAHAHAHA bjánar :(

Ásdís Sigurðardóttir, 15.7.2011 kl. 11:00

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Verulega góð þessi, Jóna Kolbrún, lyginni líkust, hefði sómt sér vel í safni Münchhausens.

Tökum eftir þessi:

Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.

Svo sækja þau um innlimun í þetta sama Evrópusamruna-stórveldi !!!

Steingrimur J. og Árni Þór, ef þið eruð ekki lygarar, hverjir eru það þá?

Jón Valur Jensson, 15.7.2011 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband