9.10.2008 | 02:58
Próf fyrir verðandi foreldra
Próf fyrir verðandi foreldra, það er stolið af barnalandi
Ert þú að velta því fyrir þér hvort þú sért tilbúin(n) til að eignast barn? Þá ættirðu kannski að taka þetta próf fyrst!
Fituprófið
Smurðu hnetusmjöri á sófann og aðeins upp á gardínurnar. Settu nokkrar kjötbollur á bak við sófann og láttu þær vera þar yfir sumarið.
Leikfangaprófið
Náðu í kassa með 25 kílóum af Legó-kubbum. Fáðu vin þinn til að dreifa vel úr kubbunum á gólfið í íbúðinni. Láttu binda fyrir augun á þér. Reyndu svo að fara frá svefnberginu og inn í eldhús og aftur til baka. Það er bannað að vera í skóm og alveg bannað að æpa því það getur vakið barnið um nætur.
Stórmarkaðsprófið
Fáðu lánað eitt dýr af millistærð (t.d. geit) og farðu með hana í næsta stórmarkað að versla. Hafðu auga með geitinni allan tímann og borgaðu fyrir allt sem hún étur eða eyðileggur.
Fataprófið
Hefurðu prófað að klæða tveggja ára gamalt barn í föt? Fáðu þér stóran, lifandi og spriklandi kolkrabba. Troddu honum í lítið innkaupanet og passaðu að hafa alla armana inni í pokanum.
Matarprófið
Keyptu þér stóra plastkönnu. Fylltu hana til hálfs með vatni og hengdu hana svo upp í loftið í snúru. Láttu könnuna sveiflast til og frá eins og pendúl. Reyndu nú að koma einni matskeið af hafragraut niður um stútinn á könnunni um leið og þú leikur flugvél með skeiðinni. Helltu svo öllu innihaldinu á gólfið.
Næturprófið
Saumaðu þér lítinn poka úr sterku efni og fylltu hann með 4-5 kílóum af sandi. Klukkan 15 tekur þú pokann upp og byrjar að ganga um gólf með hann um leið og þú raular. Þessu heldur þú áfram til kl. 21. Leggðu þá pokann frá þér og stilltu vekjaraklukkuna á 22. Þá þarftu að vakna, ná í sandpokann og syngja öll þau lög sem þú hefur mögulega heyrt um ævina. Semdu svo 10-12 ný lög og syngdu þau til kl. 4 um morguninn á meðan þú gengur um gólf með pokann. Stilltu vekjaraklukkuna á 5. Vaknaðu og taktu til morgunmat. Gerðu þetta alltaf 5 daga í röð og líttu glaðlega út!
Sköpunargáfuprófið
Fáðu þér eggjabakka. Búðu til krókódíl úr honum með aðstoð skæra og málningar. Fáðu þér svo tóma klósettrúllu og búðu til fallegt jólaljós úr henni. Þú mátt aðeins nota límband og álpappír. Að lokum skaltu fá þér tóma mjólkurfernu, borðtennisbolta og tóman Kornflakes-pakka. Búðu til alvöru eftirlíkingu af Eiffel-turninum.
Bílprófið
Gleymdu því að fá þér BMW og fáðu þér station-bíl (þið vitið þessi löngu að aftan til að geyma vagna, kerrur og alls konar fylgihluti!) Keyptu þér súkkulaðiís í brauði og settu hann í hanskahólfið. Láttu hann vera þar. Finndu krónu. Settu hana inn í geislaspilarann í bílnum. Fáðu þér stóran pakka af kexkökum og myldu þær allar í aftursætið. Nú er bíllinn tilbúinn!
Þolpróf kvenna
Fáðu lánaðan stóran grjónapúða og festu hann framan á magann á þér. Þú getur notað öryggisnælur og nælt pokanum í fötin þín. Hafðu pokann framan á þér í 9 mánuði. Að þeim tíma liðnum geturðu fjarlægt 1/10 af innihaldi pokans ? 9/10 verða eftir.
Þolpróf karla
Farðu inn í næsta apótek. Settu seðlaveskið þitt opið á borðið og segðu apótekaranum að taka eins og hann vill. Farðu nú í næsta stórmarkað. Farðu inn á skrifstofu og gerðu samning við eigandann um að launin þín verði lögð inn á reikning búðarinnar um hver mánaðamót. Keyptu þér dagblað. Farðu með það heim og lestu það í ró og næði. Í síðasta sinn!
Lokaprófið
Komdu þér í samband við par sem á barn. Útskýrðu fyrir þeim hvernig þau geta bætt sig í agamálum, þolgæðum, þolinmæði, klósettþjálfun og borðsiðum barnsins. Legðu áherslu á að þau megi aldrei láta barnið sitt hlaupa um eftirlitslaust. Njóttu kvöldsins, því þú munt aldrei aftur hafa rétt svör við öllu.
Ert þú tilbúin(n) til að eignast barn?
Þetta er nú svolítið ýkt dæmi, allavega á ég 6 börn og er ennþá lifandi með þokkalega geðheilsu. Ein sem hefur haft börn á brjósti í 56 mánuði samtals.
Athugasemdir
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 9.10.2008 kl. 14:10
Úff... feginn er ég að vera karlmaður og þurfa ekki að fæða og brjóstala hóp af úlfum!!! Eða þannig ... konur eru hetjur sannkallaðar!
Hafðu það ljúft Jóna mín ...
Tiger, 10.10.2008 kl. 01:40
Hólmdís Hjartardóttir, 10.10.2008 kl. 01:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.