16.3.2010 | 01:43
Föðurminning
Mér finnst þetta ljóð fallegt og langar mig að birta það í minningu föður míns, hann lést á Landsspítalanum þann 4. mars. Á morgun verður hann borinn til grafar, ég sakna þín pabbi minn.
Föðurminning
Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabba minn
vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.
En minning þín hún lifir í hjörtum hér
því hamingjuna áttum við með þér.
Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú
þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.
Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund
og gaman var að koma á þinn fund.
Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til
nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.
Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn
þá gleður okkar minning þín, elsku pabbi minn.
Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut
gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.
Og ferðirnar sem förum við um landið út og inn
er fjarsjóðurinn okkar pabbi minn.
Denver/Guðrún Sigurbjörnsdóttir
Hvíl þú í friði elsku pabbi minn.
Þín dóttir Jóna Kolla
Athugasemdir
Votta þér samúð mína.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 16.3.2010 kl. 02:07
Fallegt ljóð. Fyrir mánuði missti ég móður mína, einu manneskjuna sem ég hef borið fullt traust til í þessu lífi og aldrei brást.
Skil því vel tilfiningar þínar á þessari erfiðu stund og votta þér innilega samúð.
Dingli, 16.3.2010 kl. 02:33
Kæra Jóna, sendi þér hugheilar kveðjur og hlýju inn í jarðarfaradaginn.
Vona að stundin verði falleg, friðsæl og hlaðin góðum minningum um góðan pabba.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 16.3.2010 kl. 07:23
Innilegar samúðarkveðjur Jóna Kolbrún mín, ljóðið er fallegt. Blessuð sé minning hans.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.3.2010 kl. 11:28
Ég votta þér samúð mína. Það er sárt að sakna, en samt sem áður er ljúft að ylja sér við góðar minningar um þá sem eru farnir frá okkur.
Sigrún Aðalsteinsdóttir, 16.3.2010 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.