Viðsnúningur Jóhönnu

Árið 1998 sagði Jóhanna Sigurðardóttir þetta, þetta er fengið af vef Samfylkingarinnar. 

"

29. desember 1998

Þjóðaratkvæðagreiðsla styrkir lýðræðið

OFFORS RÍKISSTJÓRNARINNAR KNÝR Á UM ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU
Hér á landi búum við gjarnan við samsteypustjórnir og með slíkum ríkisstjórnum er auðveldara að semja sig frá kosningaloforðum. Við höfum orðið vitni að því í samskiptum þeirra tveggja flokka sem hafa verið í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili sem senn lýkur, að sett eru fram stór mál sem ekki hafa verið rædd í kosningabaráttunni.
Miðhálendismálið er slíkt mál og hefði fyllilega komið til skoðunar að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mál sem stjórnarflokkarnir minntust heldur ekki á í kosningabaráttunni var að festur var í sessi eignarréttur landeigenda , þannig að þeir geta í krafti eignarhalds og nýtingar á auðlindum rakað til sín stórkostlegum fjármunum, ef þjóðin þarf að nýta auðlindir sem finnast á jarðeignum þessara landeigenda.
Sama gildir um gagnagrunn á heilbrigðissviði, sem færir einum aðila einkarétt á miklum þjóðarauði, sem eru heilsufarsupplýsingar þjóðarinnar. Þeir sögðu þjóðinni heldur ekki í kosningabaráttunni að þeir ætluðu að leggja niður félagslega íbúðakerfið sem þjónað hefur láglaunafólki í 70 ár. Áhrifa þessara gjörða ríkisstjórnarinnar má m.a. sjá í því að 1200-1500 einstaklingar og fjölskyldur eru nú á biðlista eftir leiguíbúðum.
Þessi mál, sem hafa grundvallarþýðingu fyrir hag og velferð þjóðarinnar og sem knúin voru í gegn mörg hver í mikilli andstöðu við meirihluta þjóðarinnar sýna að nauðsynlegt er að hafa slíkan málskotsrétt sem þjóðaratkvæðagreiðsla er í stórum og umdeildum málum.
Á MÁLASKRÁ SAMFYLKINGARINNAR
Á Íslandi er í mjög fáum tilvikum hægt að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram. Það á við ef 3/4 hlutar þingmanna greiða atkvæði með tillögu um að forseti lýðveldisins verði leystur frá embætti, ef forseti synjar staðfestingu á lagafrumvörpum og ef gerðar eru breytingar á kirkjuskipan landsins með lögum.
Réttur fólksins til atkvæðagreiðslu er einnig bundinn minni háttar málum eins og opnun áfengisútsölu eða hvort leyfa skuli hundahald. Eins og við þekkjum hefur forseti lýðveldisins frá stofnun þess aldrei neitað staðfestingu á lagafrumvarpi, sem honum er heimilt samkvæmt stjórnarskránni, þannig að það færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fyllilega getur komið til greina að afnema þenna rétt forseta lýðveldisins en heimila þess í stað þjóðaratkvæðagreiðslu,. Það ætti að vera óþarft eða a.m.k. ekki eins mikil ástæða til þeirrar heimildar ef opnaðist fyrir þann lýðræðislega rétt fólksins að stór mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu ef fimmtungur kosningarbærra manna óskar þess.
Ljóst er af umræðum á þessu kjörtímabili um þetta frumvarp að stjórnarflokkarnir hafa lítinn áhuga á að tryggja fólkinu þann rétt sem felst í heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu. Aftur á móti er þetta mál að finna í málaskrá samfylkingarinnar, sem eitt af mörgum framsæknum málum sem samfylkingin mun beita sér fyrir."

Í gær var önnur Jóhanna sem talaði, Jóhanna sem hefur vit fyrir heimskri þjóð.  Steingrímur var líka einu sinni fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum, en hefur selt sannfæringu sína í dag... 




mbl.is Forsetinn fékk frumvarpið í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Einarsson

nkl ! "OFFORS RÍKISSTJÓRNARINNAR KNÝR Á UM ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU" hún ætti að líta sér nær!

Sævar Einarsson, 17.2.2011 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband