26.3.2009 | 02:08
Þess vegna ætla ég að kjósa Borgarahreyfinguna X-O
Réttlæti siðferði jafnrétti
Gripið verði þegar í stað til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja
1. Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 23% og afborgunum af húsnæðislánum megi fresta um tvö ár með lengingu lána. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði afnumin.
2. Leitað verði leiða út úr myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða, ef þess þarf, einhliða upptöku annars gjaldmiðils.
3. Boðin verði víðtæk aðstoð við atvinnulausa um allt land með það að markmiði að aðstoða þá í að nýta atvinnuleysið sem tækifæri.
4. Skuldsett fyrirtæki verði boðin til sölu og tilboðum aðeins tekið ef ásættanlegt verð fæst. Annars verði starfsfólkinu leyft að taka yfir fyrirtæki. Skuldir eigenda verði ekki felldar niður sjálfkrafa en veita má hagstæð lán eða breyta skuldum lífvænlegra fyrirtækja í hlutafé í eigu ríkisins frekar en að afskrifa skuldir.
5. Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fái ekki að taka yfir stjórn á landinu.
6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. Samhliða því verði gefið loforð um að 2% af VLF Íslands renni til þróunaraðstoðar á ári í tíu ár til að sýna góðan vilja Íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.
Landsmenn semji sjálfir sína eigin stjórnarskrá
1. Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess. Sama skal gilda um þingrof.
2. Bera skal alla samninga sem framselja vald undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
3. Rofin verði öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims.
4. Viðurkenna skal þau sjálfsögðu mannréttindi að vægi atkvæða í alþingiskosningum verði jafnt, sbr. 1. gr. Mannréttindayfirlýsingar S. Þ., enda sé það í samræmi við hugmyndir um aukið vægi þjóðaratkvæðisgreiðslu um einstök mál. Það er augljóst að ekki gengur að láta suma landsmenn hafa meira vægi en aðra í þjóðaratkvæðagreiðslu.
5. Fjöldi þingmanna miðist við fjölda á kjörskrá og verði hlutfallið 1/4000. Það er í samræmi við algengt hlutfall hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við. Þetta myndi þýða örlitla fækkun þingmanna frá því sem nú er en hægfara fjölgun í framtíðinni með vaxandi fólksfjölda.
6. Kjördæmaskipan verði endurskoðuð og kjördæmum á suðvesturhorninu fækkað úr þremur í eitt.
7. Tryggð verði skipting valdsins milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi.
8. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins gegni embætti í mesta lagi í átta ár eða tvö kjörtímabil samfellt.
9. Fyrstu málsgrein 76. greinar stjórnarskrárinnar verði breytt til samræmis við Mannréttindayfirlýsingu S. Þ. um réttinn til lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan. 76. gr. verði á þessa leið eftir breytingu: Öllum skal tryggður réttur til grunnlífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Grunnlífskjör teljast vera nauðsynleg næring, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.
10. Allar náttúruauðlindir verði í þjóðareigu og óheimilt að framselja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt.
Trúverðug rannsókn á íslenska efnahagshruninu fari af stað undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta skal eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur
1. Tafarlaust verði sett í gang opinber rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga á hruni íslenska efnahagskerfisins. Samhliða því verði sett lög sem leyfa ógildingu allra fjármálagerninga undanfarinna tveggja ára, þ.m.t. gerninga skilanefnda bankanna, og í undantekningartilfellum lengra aftur í tímann ef sýnt þykir að um óeðlilega gjörninga hafi verið að ræða.
Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla
1. Ráðningar og skipanir í embætti og þ.a.l. uppsagnarfrestur allra embættismanna sé í samræmi við það sem almennt gerist hjá stjórnendum á vinnumarkaði. Nánari útfærsla verður gerð í samráði við Kjararáð.
2. Tiltekinn minnihluti þingmanna geti boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.
3. Hæfi umsækjenda um störf hæstaréttar- og héraðsdómara verði metið af hlutlausri fagnefnd skipaðri af Alþingi eftir tilnefningu Hæstaréttar. Ráðherra beri að velja dómara úr hópi þeirra sem fagnefndin telur hæfasta.
4. Ráðið verði í stöður innan stjórnsýslunnar á faglegum forsendum.
5. Fastanefndir þingsins verði efldar. Nefndarfundir verði almennt haldnir í heyranda hljóði. Gerð verði krafa um að fastanefndir afgreiði öll mál og skili niðurstöðu innan ákveðins tíma.
6. Settar verði siðarreglur fyrir alþingismenn, ráðherra og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins og til þess ætlast að þeir m.a. geri grein fyrir öllum eignum og skuldum, stjórnarsetu í fyrirtækjum og upplýsi jafnharðan um allar breytingar á þessu sviði. Þingmenn, ráðherrar og embættismenn beri ábyrgð á gjörðum sínum.
Lýðræðisumbætur STRAX
1. Stjórnlagaþing fólksins í haust
2. Persónukjör í alþingiskosningum
3. Afnema 5% þröskuldinn
4. Þjóðaratkvæðagreiðslur
5. Ný framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og sama stuðning og aðrir stjórnmálaflokkar
Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.
Undrast aðgerðir yfirvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki er stefnuskráin okkar löng, en mjög gagnorð. Og vonandi skilvirk.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.3.2009 kl. 02:23
Ps: Ef einhver vill skrá sig á meðmælendalista Borgarahreyfingarinnar, þá er ég með lista sem ég get komið með til viðkomandi.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.3.2009 kl. 02:27
sannarlega vona ég að Borgarahreyfingin komist yfir 5%
Hólmdís Hjartardóttir, 26.3.2009 kl. 08:34
Tek undir orð Hólmdísar þó ekki sé ég viss um að kjósa hreyfinguna þá myndi það sannarlega auka litrófið á alþingi.
Hilmar Gunnlaugsson, 26.3.2009 kl. 16:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.